Forsjá við skilnað eða samvistarslit foreldra

Ákveða þarf forsjá barns við skilnað foreldra að borði og sæng eða lögskilnað ef óskað er lögskilnaðar án undanfarandi skilnaðar að borði og sæng. Eins þarf að ákveða forsjá barns þegar foreldrar slíta sambúð sem skráð er í þjóðskrá. Foreldrar geta ákveðið með samningi að fara sameiginlega með forsjá barns eða annað hvort foreldra fari með forsjána, sbr. hér að neðan.

Foreldrar sem voru í óskráðri sambúð fyrir gildistöku barnalaga nr. 76/2003 þann 1. nóvember 2003 fara áfram með sameiginlega forsjá barns og þurfa því að ákveða forsjá þess við sambúðarslit.

Samningar um forsjá.

Foreldrar geta ávallt samið um forsjá barna sinna. Til þess að samningur foreldra öðlist gildi þarf sýslumaður að staðfesta hann.
Efnisyfirlit

Sameiginleg forsjá.

Foreldrar geta samið um sameiginlega forsjá þegar forsjá barns er aðeins í höndum annars foreldris, t.d. strax eftir fæðingu barns og þegar foreldrar eru ekki í skráðri sambúð. Það geta foreldrar einnig gert við skilnað eða við slit á skráðri sambúð. Foreldrar þurfa að vera sammála um hjá hvoru þeirra barn á að eiga lögheimili. Barnið dvelst þá að jafnaði hjá því foreldra sem það á lögheimili hjá, en dvelst hjá hinu á tilteknum tíma. Sá sem barnið býr hjá tekur ákvarðanir um daglegar þarfir barnsins hverju sinni. Samþykki beggja foreldra þarf hins vegar að koma til varðandi allar meiriháttar ákvarðanir sem varða persónulega hagi barnsins. Sýslumaður getur úrskurðað um meðlag og umgengni þótt foreldrar fari sameiginlega með forsjá barns eins og sagt er frá í köflum um umgengni og meðlag. Foreldri sem barn er með lögheimili hjá hefur réttarstöðu einstæðs foreldris samkvæmt skattalögum.

Comments are closed.