Hver er raunveruleikinn hjá einstæðum foreldrum í dag?

Hverjir leita til Félags einstæðra foreldra?
Til félagsins leita mestmegnis einstæðar mæður eftir sambúðarslit eða skilnað.

Einnig koma foreldrar sem hafa tekið ákvörðun um skilnað og leita ráðgjafar. Síðan eru það foreldrar sem hafa stofnað til nýrrar sambúðar. Þeir koma vegna ágreinings varðandi umgengni við börn úr fyrri sambúð. Mæður af erlendum uppruna leita í vaxandi mæli, oft fyrir milligöngu félagsráðgjafa hjá nærliggjandi sveitarfélögum.

Aukningu má merkja hjá feðrum, sem taka frumkvæði og leita aðstoðar.

Margt er ólíkt með ofangreindum fjölskyldugerðum svo sem aðstæður og aldur foreldranna, lífsviðurværi, menntun og barnafjöldi. Það sem fyrrnefndar fjölskyldur eiga sameiginlegt eru oftast einar tekjur. Í mörgum tilfellum lágar tekjur sem duga skammt. Ungar og ómenntaðar mæður, í fullri vinnu, ná sjaldnast endum saman sem er umhugsunarvert.

Hvers vegna er leitað til FEF?
Margir af einstæðu foreldrunum sem leita eftir aðstoð eru að berjast í lífsins ólgusjó með kornabörn, smábörn, grunnskólabörn og unglinga. Sumir eru svo lánsamir að eiga stórfjölskyldu, sem veitir tilfinningalegan og fjárhagslegan stuðning. Aðrir hafa lítinn
stuðning sem öllum er nauðsynlegur þegar á móti blæs. Töluvert er leitað til félagsins vegna umgengnisréttarmála, ýmist vegna almennrar fræðslu um hefðbundna umgengni eða vegna ágreinings foreldra um hvernig umgengni skuli háttað. Stundum er ágreiningurinn vegna óuppgerðra tilfinninga hjá foreldrum. Sú hætta er þá fyrir hendi að börnin verði bitbein milli foreldra sem veldur börnum oft vanlíðan. Oft er hægt með samtölum við foreldrana að leysa slík mál á farsælan hátt. Til félagsins leita foreldrar vegna fyrirhugaðs skilnaðar til að fá ráðgjöf, oft áður en farið er til sýslumanns. Börnin liggja í sumum tilfellum þungt á foreldrum í skilnaðarmálum. Félagsmönnum stendur til boða ráðgjöf hjá lögfræðingi og félagsráðgjafa samtímis.

Einstæðir foreldrar leita í vaxandi mæli vegna félagslegra erfiðleika. Má þar nefna fjárhags- og húsnæðisvanda, sem brennur á mörgum. Foreldrar snúa sér einnig til félagsins vegna áhyggna af börnum sínum og vilja fá mat á líðan barnsins. Rannsóknir, bæði innlendar og erlendar, sýna að börn hafa áhyggjur af fjárhagserfiðleikum foreldra sinna. Börn, sem búa við kröpp kjör, segja gjarnan frá því í viðtölum að þau ætli að kaupa hús handa mömmu og pabba líka, þegar þau verði stór og rík. Börn og unglingar bera sig saman við jafnaldra á mörgum sviðum, það getur einnig átt við um búsetu. Það er erfitt fyrir stálpaðan krakka að bjóða leikfélaga heim í pínulítið rými, þar sem foreldri býr með tvö börn í tuttugu fermetra bráðabirgðahúsnæði. Flest láta það ógert enda ekki aðstaða til leiks né heldur hagstæður samanburður. Það sem alvarlegast er að hluti einstæðra foreldra leitar til FEF vegna þess að
grunnþörfum fjölskyldunnar er ekki fullnægt.

Þeir foreldrar sem eru að berjast fyrir því að fá öruggt húsnæði eru undir stöðugu álagi.
Fjárhagurinn leyfir sjaldnast það sem frjálsi leigumarkaðurinn setur upp þrátt fyrir húsaleigubætur sem hjálpa mörgum. Börn spyrja í sífellu hvenær flytjum við í okkar húsnæði? Margir foreldranna sitja uppi með samviskubit yfir því að geta ekki gert betur. Streitan og
áhyggjurnar eru viðbót við samviskubitið. Börn og unglingar, sem eru að mótast og þroskast, eru oft viðkvæm fyrir erfiðleikum í félagslegu umhverfi. Sum börn virðast samt komast vel frá erfiðleikunum. Persónuleiki barna spilar þar stóran þátt ásamt léttri lund.

Öll börn skynja samt vel þegar streita er í nánasta umhverfi. Birtingarmyndin hjá sumum börnum getur til að mynda komið fram í breyttri hegðun eða tilfinningalegum vanda. Sum börn verða pirruð og erfiðari í samskiptum en önnur sýna merki um óyndi.

Langvarandi erfiðleikar í umhverfi barna geta haft áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu þeirra.

Grunnþarfir mannsins
Abraham Maslow var bandarískur sálfræðingur. Hann er einna þekktastur fyrir líkan þar sem grunnþörfum mannsins er raðað í píramída. Í kenningu hans kemur fram að sé grunnþörfum mannsins ekki fullnægt hafi það alvarlegar afleiðingar á andlega og líkamlega heilsu viðkomandi. Maslow-píramídinn samanstendur af fimm grunnþörfum mannsins sem eru: 1) öndun, matur, vatn 2) öryggi 3) vinátta og ást 4) sjálfsvirðing og sjálfstraust 5) möguleikinn til frekari þroska. Allir þarfnast öryggis og fastrar búsetu fyrir sig og börnin sín. Margir einstæðu foreldranna eru að bíða eftir úrlausn í húsnæðismálum og halda ótrauðir áfram lífsbaráttunni.
Seiglan sem þeir búa yfir er aðdáunarverð þrátt fyrir skort á grunnþörfum mannsins.

Oktavía Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi (MSW) hjá Félagi einstæðra foreldra.

Comments are closed.